Fréttir-Tilkynningar

NSM – Námsefnissjóður SÍTÓN og MMR

Gylfi Garðarsson og Ásmundur Einar Daðason handsala samninginn

Eitt helsta hagsmunamál SÍTÓN er að opinber stuðningur við námsefni fyrir tónlistarskóla samræmist stuðningi við aðrar námsgreinar. Frá stofnun félagsins 2012 hefur félagið bent á erfiða stöðu málaflokksins og á umliðnu ári skilaði þetta starf mikilvægum áfanga.

Veturinn 2022-23 átti SÍTÓN fundi og samtöl með fulltrúum í ráðuneytum menningar og menntamála. Í kjölfar þeirra samskipta bauðst Menntamálaráðuneytið (MMR) til að gera styrktarsamning við SÍTÓN um sérstakt framlag til styrktar námsefnisgerðar fyrir tónlistarskóla. Þann 29. júní undirrituðu ráðherrann, Ásmundur Einar Daðason, og formaður SÍTÓN, Gylfi Garðarsson, samning um tíu milljón króna  einskiptisframlag ráðuneytisins til verkefnisins, sem hefur fengið heitið NSM-Námsefnissjóður Sítón og Mmr. Sjóðnum er ætlað að styrkja höfunda tónbóka um hluta höfundarlauna árin 2023-2024 í samræmi við uppgefin markmið samningsins.

Samkvæmt markmiðum samningsins er verkefni sjóðsins að styrkja útgáfu tónbóka fyrir tónlistarskóla. Til tónbóka teljast nótnarit, kennslugögn og fræðirit, ásamt tengdu efni á prenti eða stafrænt. Sjóðnum er ætlað að stuðla að nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu tónbóka með það að markmiði að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna í samræmi við þarfir nemenda og skóla.

Félagsfundur Sítón samþykkti að úthlutunarnefnd sjóðsins yrði skipuð tveimur fulltrúum félagsins ásamt einum fulltrúa sem Samtökum tónlistarskólastjóra (STS) var boðið að skipa. Skipaðir fulltrúar í nefndinni eru Gylfi Garðarsson (SÍTÓN), Össur Geirsson (SÍTÓN) og Aron Örn Óskarsson (STS). Á fundi nefndarinnar þ. 20. september var ákveðið að skipta sjóðnum í tvö úthlutunartímabil með umsóknarfresti 15. nóvember 2023 og 15. mars 2024.

Leitað verður til stjórnenda tónlistarskóla og fagfélaga tónlistarkennara um aðstoð við að kynna félagsmönnum upplýsingar um verkefnið ásamt tengli á vefsíðu með sjóðsreglum og umsóknarformi. Höfundar kennsluefnis og aðrir áhugasamir félagsmenn eru hvattir til að fylgjast með framvindu málsins og sækja um styrk fyrir verkefnum sem falla að markmiðum sjóðsins þegar opnað verður fyrir móttöku umsókna.

Related Posts