NSM – Opnað á vorúthlutun 2024

Námsefnissjóður Sítón og Menntamálaráðuneytisins (NSM) hefur opnað fyrir umsóknir um styrki vegna seinni úthlutunar með umsóknarfrest til 15. mars 2024. Umsóknarformið er á vef Sítón og fyllist út þar (sjá: NSM   STYRKUMSÓKN). Úthlutunarreglur sjóðsins má nálgast HÉR.

Sjóðurinn styrkir höfunda tónbóka um hluta höfundarlauna árin 2023-2024 í samræmi við uppgefin markmið samningsins. Þau helstu eru að stuðla að nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu tónbóka fyrir tónlistarskóla svo auka megi framboð og fjölbreytileika námsgagna í takt við þarfir nemenda og skóla. Til tónbóka teljast nótnarit, kennslugögn og fræðirit fyrir tónlistarnám, ásamt tengdu efni á prenti eða stafrænt.

Höfundar kennsluefnis og aðrir áhugasamir í fagfélögum tónlistarkennara eru hvattir til að sækja um styrk fyrir verkefnum sem falla að markmiðum sjóðsins.

Úthlutunarnefnd sjóðsins skipa Gylfi Garðarsson (SÍTÓN), Össur Geirsson (SÍTÓN) og Aron Örn Óskarsson (STS).

NSM – Niðurstaða haustúthlutunar 2023

Námsefnissjóður Sítón og Menntamálaráðuneytisins, NSM, fékk 13 umsóknir um styrki í haustúthlutun 2023 að upphæð samtals 13,8 milljónir króna. Sjóðurinn hafði til ráðstöfunar samtals 4,5 m. króna fyrir úthlutunina og má að hámarki styrkja hverja umsókn um 1 m. króna.

Að teknu tilliti til ráðstöfunarfjár sjóðsins og matskvarða sem skiptist í 5 meginþætti og 12 undirþætti var niðurstaða úthlutunarnefndar NSM að veita 8 styrki að upphæð samtals 4,5 milljónir króna. Hlutu flestar umsóknir lægra framlag en sótt var um.

Eftirfarandi umsækjendur hlutu styrki frá NSM haustið 2023:

NSM – Opnað á styrkumsóknir

Gylfi Garðarsson og Ásmundur Einar Daðason handsala samning um NSM

Námsefnissjóður Sítón og Menntamálaráðuneytisins (NSM) hefur opnað fyrir umsóknir um styrki vegna fyrri úthlutunar með umsóknarfrest til 15. nóvember 2023. Umsóknarformið er á vef Sítón og fyllist út þar (sjá: NSM   STYRKUMSÓKN). Úthlutunarreglur sjóðsins má nálgast HÉR.

Sjóðurinn styrkir höfunda tónbóka um hluta höfundarlauna árin 2023-2024 í samræmi við uppgefin markmið samningsins. Þau helstu eru að stuðla að nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu tónbóka fyrir tónlistarskóla svo auka megi framboð og fjölbreytileika námsgagna í takt við þarfir nemenda og skóla. Til tónbóka teljast nótnarit, kennslugögn og fræðirit fyrir tónlistarnám, ásamt tengdu efni á prenti eða stafrænt.

Höfundar kennsluefnis og aðrir áhugasamir í fagfélögum tónlistarkennara eru hvattir til að sækja um styrk fyrir verkefnum sem falla að markmiðum sjóðsins.

Úthlutunarnefnd sjóðsins skipa Gylfi Garðarsson (SÍTÓN), Össur Geirsson (SÍTÓN) og Aron Örn Óskarsson (STS).

NSM – Námsefnissjóður SÍTÓN og MMR

Gylfi Garðarsson og Ásmundur Einar Daðason handsala samninginn

Eitt helsta hagsmunamál SÍTÓN er að opinber stuðningur við námsefni fyrir tónlistarskóla samræmist stuðningi við aðrar námsgreinar. Frá stofnun félagsins 2012 hefur félagið bent á erfiða stöðu málaflokksins og á umliðnu ári skilaði þetta starf mikilvægum áfanga.

Veturinn 2022-23 átti SÍTÓN fundi og samtöl með fulltrúum í ráðuneytum menningar og menntamála. Í kjölfar þeirra samskipta bauðst Menntamálaráðuneytið (MMR) til að gera styrktarsamning við SÍTÓN um sérstakt framlag til styrktar námsefnisgerðar fyrir tónlistarskóla. Þann 29. júní undirrituðu ráðherrann, Ásmundur Einar Daðason, og formaður SÍTÓN, Gylfi Garðarsson, samning um tíu milljón króna  einskiptisframlag ráðuneytisins til verkefnisins, sem hefur fengið heitið NSM-Námsefnissjóður Sítón og Mmr. Sjóðnum er ætlað að styrkja höfunda tónbóka um hluta höfundarlauna árin 2023-2024 í samræmi við uppgefin markmið samningsins.

Samkvæmt markmiðum samningsins er verkefni sjóðsins að styrkja útgáfu tónbóka fyrir tónlistarskóla. Til tónbóka teljast nótnarit, kennslugögn og fræðirit, ásamt tengdu efni á prenti eða stafrænt. Sjóðnum er ætlað að stuðla að nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu tónbóka með það að markmiði að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna í samræmi við þarfir nemenda og skóla.

Félagsfundur Sítón samþykkti að úthlutunarnefnd sjóðsins yrði skipuð tveimur fulltrúum félagsins ásamt einum fulltrúa sem Samtökum tónlistarskólastjóra (STS) var boðið að skipa. Skipaðir fulltrúar í nefndinni eru Gylfi Garðarsson (SÍTÓN), Össur Geirsson (SÍTÓN) og Aron Örn Óskarsson (STS). Á fundi nefndarinnar þ. 20. september var ákveðið að skipta sjóðnum í tvö úthlutunartímabil með umsóknarfresti 15. nóvember 2023 og 15. mars 2024.

Leitað verður til stjórnenda tónlistarskóla og fagfélaga tónlistarkennara um aðstoð við að kynna félagsmönnum upplýsingar um verkefnið ásamt tengli á vefsíðu með sjóðsreglum og umsóknarformi. Höfundar kennsluefnis og aðrir áhugasamir félagsmenn eru hvattir til að fylgjast með framvindu málsins og sækja um styrk fyrir verkefnum sem falla að markmiðum sjóðsins þegar opnað verður fyrir móttöku umsókna.

Um ljósritun kennslubóka

AF GEFNU TILEFNI

Minni ljósritun – Meiri útgáfa

Á Facebook-síðunni Bakland tónlistarkennslu birtist færsla þ. 9. september 2021 þar sem einn félagsmanna í SÍTÓN greinir frá alvarlegu tilviki um óleyfilega ljósritun á hans bókum. Þar sem umræða varðandi ljósritun tónbóka er þörf og nauðsynleg og af því tilefni sem að ofan greinir er við hæfi að árétta eftirfarandi í þeim efnum.

Staðfesting á orðrómi

Tilvikið staðfestir þann orðróm að sums staðar sé pottur brotinn varðandi ljósritun tónbóka. Í fyrsta lagi hefur sá orðrómur lengi verið á kreiki að sumir tónlistarkennarar noti nær eingöngu ljósrit í stað bóka (þetta hafa höfundar upplifað við prófdómarastörf). Í öðru lagi að einhverjir tónlistarskólar eða kennarar velji lög og verkefni úr nokkrum bókum, ljósriti, gormi og gefi eða selji nemendum ljósritin.

Virði og virðing

Liður í því að nemandi beri virðingu fyrir náminu er að eiga eigin námsbækur. Vinna með bók frekar en ljósrit stuðlar að því að nemandinn verður ábyrgari og áhugasamari í náminu því börn skynja virðismuninn á bók og ljósriti og haga sér samkvæmt því. Í námsbók finnur nemandinn faglegt samræmi og sér hvað er framundan í náminu. Spyr ef til vill hvenær megi spila það sem er aftar í bókinni. Flestir tónlistarkennarar átta sig á þessu samhengi og láta nemendur sína kaupa bækur sem þeir eru að vinna með. Um leið styðja þeir og efla íslenska tónbókaútgáfu. Sem betur fer eru flestir til fyrirmyndar hvað þetta varðar en betur má ef duga skal eins og ofangreint tilvik sýnir.

Tónbókaútgáfa

Að baki hverrar tónbókar liggur mikil vinna og fjárútlát. Velja þarf lög, afla birtingarleyfis rétthafa, útsetja og í sumum tilfellum að semja ný lög og verkefni. Setja upp handrit, vinna umbrot og leiðrétta prófarkir. Þá fyrst er hægt að láta prenta efnið svo úr verði bók. Eftir það kemur svo lagerhald, dreifing og innheimta. Sköpun bókar tekur oft 1-2 ár, stundum meira og eftir það getur tekið áratugi að halda henni við á markaði.
Höfundar og útgefendur tónbóka vona að tónlistarkennarar og skólastjórnendur séu sammála þeim um að íslensk tónbókaútgáfa sé ómissandi hluti af tónlistarfræðslu þjóðarinnar. Best er að sýna það í verki með því að halda ljósritun útgefinna bóka í lágmarki og ætíð innan löglegra og siðlegra marka.

Gylfi Garðarsson, formaður SÍTÓN

Risaútgáfa einsöngslaga – Ísalög

Í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands hefur Jón Kristinn Cortez ráðist í það þrekvirki að safna saman og gefa út á afmælisárinu ritröð 289 íslenskra einsöngslaga sem samin eru á tímabilinu 1918-2018.

Útgefandi ritraðarinnar er forlagið Ísalög, útgáfa Jóns Kristins.

Lagúravalið spannar verk 66 tónskálda og mun veita óviðjafnanlega yfirsýn yfir einsöngslög þjóðarinnar síðustu 100 ár  í einni samhæfðri ritröð. Lögin eru í upprunalegri tónhæð.

Af FB síðu útgefandans, Jóns Kristins Cortez.

Niðurstöður kennsluefniskönnunar

Greinargerð með niðurstöðum úr kennsluefniskönnun SÍTÓN í janúar s.l. er nú tilbúin til kynningar. Nálgast má hana til lestrar eða niðurhals hér: Íslenskt kennsluefni í grunnnámi tónlistar 2016-17 (pdf)
Vonast er til að í niðurstöðunum komi fram mikið af lykilupplýsingum sem geti hraðað framþróun íslensks kennsluefnis í tónlistarfræðslu. Tónlistarkennurum og hagsmunafélögum þeirra eru færðar bestu þakkir fyrir framlag sitt til að verkefnið skyldi heppnast jafn vel og raunin varð.
Gylfi Garðarsson, formaður SÍTÓN, sá um undirbúning og framkvæmd könnunarinnar ásamt ritun greinargerðarinnar.

Flautubókin mín 2

Nýtt efni frá félögum í SÍTÓN

Flautubokin_min_2-1.1

Flautubókin mín 2

Flautubókin mín 2 eftir Dagnýju Marínósdóttur og Ingunni Jónsdóttur er komin út. Bókin er framhald af kennslubókinni Flautubókin mín 1 og inniheldur fjölbreytt lög, æfingar og skapandi verkefni fyrir þverflautunemendur í grunnnámi. Miðað við vinsældir fyrsta heftisins má búast við að bókinni verði vel fagnað af kennurum og nemendum tónlistarskólanna.

SÍTÓN óskar Dagnýju og Ingunni til hamingju með bókina.

Creative Europe – Verkefnastyrkir

Á vegum EES ríkja er feikilegum fjármunum veitt árlega í að styrkja verkefni innan skapandi greina. Það sem fáir hérlendis gera sér hins vegar grein fyrir er að íslenskir aðilar hafa aðgang að þessum styrkjum, annað hvort sem stofnendur umsóknar eða sem samstarfsaðilar umsækjenda frá öðrum EES löndum. http://eacea.ec.europa.eu/img/visuals/creative-europe/jpeg/LogosBeneficairesCreativeEuropeRIGHT_EN.jpg

Sérstök upplýsingaveita heldur utanum fjárveitingar Creative Europe og er full ástæða fyrir fólk í skapandi greinum á Íslandi til að fylgjast með vefsíðunni ef hugurinn stefnir á stærri mið annarra Evrópulanda.

Dæmi um möguleg verkefni:

Hingað til hefur lítil þátttaka verið í slíkum verkefnum frá Íslandi og skýrist það líklega af rýrri og skipulagslausri ráðgjöf um styrkina hér heima. Áhugasamir gætu þó byrjað að athuga hvort Útflutningsstofa íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) eða Skrifstofa alþjóðasamskipta við HÍ geti veitt „fyrstu hjálp“.

Vel heppnuð könnun

Könnun SÍTÓN á kennlandshlutagrafsluefni tónlistar-kennara 2016 lauk 17. janúar s.l. Stjórn SÍTÓN færir kennurum og stéttarfélögum þeirra sínar bestu þakkir fyrir ómetanlega aðstoð til að verkefnið skyldi heppnast jafn vel og raunin varð. Þátttaka var góð og nú þegar er ljóst að í niðurstöðunum eru mikilvægar vísbendingar um æskilegar viðbætur á íslensku kennsluefni fyrir grunnstig. Talsvert verk verður að vinna úr svörunum birtingarhæf gögn og er sú vinna komin áleiðis. Vonast er til að greinargerð um könnunina verði tilbúin í apríl eða maí.

Af megin niðurstöðum má nefna að yfir 275 kennarar svöruðu könnuninni sem gerir um 33% svarhlutfall. Hlutfall fullgildra svara var um 85% sem bendir til að spurningar hafi skilist vel og greiðlega gengið að svara. Með því að bera niðurstöðugögnin saman við þætti eins og Þjóðskrá og námsgreinadreifingu nemenda er vonast til að bæta áreiðanleika svaranna umfram það sem svarhlutfallið eitt segir til um. Meðfylgjandi gröf sýna fjölda svarenda eftir landshlutum og hlutfallsdreifingu svarenda eftir kennslugreinum.

kennslugreinagraf

Save

Save