Lög Sambands íslenskra tónbókaútgefenda (SÍTÓN)

1.  Nafn og aðsetur

Félagið heitir Samband íslenskra tónbókaútgefenda, stofnað 30. maí 2012, skammstafað SÍTÓN.  Heimili þess er lögheimili formanns á hverjum tíma, varnarþing þess er í Reykjavík.

2.  Markmið og verkefni

Markmið sambandsins er að gæta hagsmuna og réttar félagsmanna og bæta skilyrði til sköpunar og útgáfu tónbóka eins og nótna, kennslugagna, fræðirita og tengdu efni til miðlunar á tónlistarefni á prenti eða stafrænt.
Að markmiðunum skal m.a. vinna með því að

  • afla upplýsinga og veita leiðbeiningar sem félagsmönnum mega að gagni koma
  • annast samninga sem félagsfundir ákveða að gerðir skuli fyrir félagsmenn sameiginlega og vera aðili að rétthafasamtökum sem máli skipta í því sambandi
  • úthluta því fé sem greitt er til sambandsins samkvæmt slíkum samningum í samræmi við reglur sem samþykktar eru á félagsfundi
  • vinna að því að lög, reglugerðir og reglur sem í gildi eru á hverjum tíma þjóni sem best markmiðum sambandsins
  • vinna að sem víðtækastri viðurkenningu á gildi tónbóka og góðum starfsskilyrðum til útgáfu þeirra

3.  Aðild

Aðild að sambandinu geta fengið skráðir útgefendur tónbóka á Íslandi sem hafa hagsmuna að gæta með sambandinu og veita því umboð til að annast fyrir sína hönd samninga í samræmi við 2. grein. Áhugafólk um framgang tónbókaútgáfu á Íslandi getur fengið stuðningsaðild án atkvæðisréttar. Stjórn sambandsins tekur við aðildarumsóknum og kannar forsendur til aðildar. Stjórnin ákveður síðan hvort og hvaða aðild verði veitt eða ekki veitt. Ákvörðun stjórnar tilkynntist umsækjanda bréflega innan 4 vikna frá því umsókn berst. Greiðsla inntöku- og árgjalds skv. 9. gr. þarf að vera lokið til að A eða B aðild taki gildi.
Aðild getur verið með þrennum hætti eftir umsvifum og hagsmunum umsækjenda.

A. Þeir sem
1. reka tónbókaútgáfu undir íslensku VSK-númeri með minnst 5 útgefnar, ISBN eða ISMN merktar tónbækur á útgáfuskrá sinni og hlutfall þeirra yfir helmingi af heildarverkum útgáfunnar skv. skrám Landsbókasafns Íslands
2. uppfylla skilyrði B og C aðildar
– – – Áhrif á fundum: Hafa kjörgengi til allra stjórnarembætta og 3 atkvæði á fundum sambandsins
B. Þeir sem
3. hafa gefið út 1-4 tónbækur með ISBN eða ISMN númer á Íslandi
4. sinna ekki trúnaðarstarfi fyrir atvinnurekstur eða félagasamtök, sem getur valdið hagsmunaárekstri við markmið SÍTÓN skv. 2.gr.
5. hafa greitt óafturkræft inntökugjald og árgjöld sambandsins fyrir aðalfund sbr. 9. gr.
6. hafa lagt fram gögn til staðfestingar ofangreindu með aðildarumsókn og endurnýja ef stjórn óskar
7. uppfylla skilyrði C aðildar
– – – Áhrif á fundum: Hafa kjörgengi til stjórnar nema formennsku og 1 atkvæði á fundum sambandsins
C. Einstaklingar sem vilja styðja markmið sambandsins og
8. staðfesta stuðnings- og trúnaðaryfirlýsingu félagsmanna
– – – Áhrif á fundum: Getur setið aðra fundi en aðalfund með málfrelsi og tillögurétt en ekki kosningarétt
Breytt aðild:­
Verði breytingar á forsendum aðildar skv. liðum 1-4 þarf félagsmaður að tilkynna stjórninni þær fyrir aðalfund og sæta breyttri aðild í samræmi við það. Stjórn getur óskað gagna til staðfestingar á forsendum aðildar. 

4.  Aðalfundur

Aðalfundur sambandsins skal haldinn fyrir 10. febrúar ár hvert. Rétt til aðalfundarsetu hafa félagsmenn, sem hafa greitt síðasta árgjald í samræmi við 9. gr. í lögum félagsins. Boðað skal til aðalfundar með minnst 10 daga fyrirvara. Eftirtaldir liðir skulu vera á dagskrá aðalfundar:

  • Skýrsla stjórnar og reikningar
  • Kjör stjórnar, fulltrúaráðs, stjórnar útgáfusjóðs og skoðunarmanna
  • Ákvörðun árgjalds og inntökugjalds fyrir næsta reikningsár
  • Önnur mál skal tilgreina í fundarboði til að fá formlega afgreiðslu aðalfundar

5.  Stjórn

Stjórnina skipa minnst þrír menn kosnir á aðalfundi, formaður kosinn sérstaklega. Að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Kjósa skal allt að þrjá varamenn fyrir stjórn, kvaddir til stjórnarfunda eftir því sem þörf krefur. Á stjórnarfundum er vægi atkvæða jafnt, óháð aðild.

6.  Fulltrúaráð

Fulltrúaráð tekur þátt í mótun stefnu í starfi sambandsins og tekur ákvarðanir um þau mál sem stjórn eða félagsfundir vísa til þess. Formaður sambandsins er jafnframt formaður fulltrúaráðs. Stjórn sambandsins og varamenn stjórnar gegna hlutverki fulltrúaráðs nema aðalfundur kjósi annað.

7.  Félagsfundir

Allar meiri háttar ákvarðanir skal bera undir félagsfund, þ.á m. samninga og ráðstöfun fjármuna, sbr. 2. gr. Tillögur stjórnar og fulltrúaráðs í því efni skal kynna í fundarboði. Til almennra félagsfunda skal boðað í tölvupósti með minnst tíu daga fyrirvara. Þar skal dagskrá fundarins koma fram.

8.  Reikningsár

Reikningsár sambandsins er almanaksárið.

9.  Árgjald og inntökugjald

Félagsmenn með A- og B-aðild skv. 3.gr. greiða árgjald sem ákveðið er á aðalfundi. Síðasta árgjald skal vera greitt fyrir aðalfund ella breytist aðild viðkomandi meðlims sjálfkrafa í stuðningsaðild (C-aðild).

10.  Lagabreytingar

Lögum þessum er aðeins heimilt að breyta á aðalfundi ef lagabreyting er sérstakur liður á auglýstri dagskrá fundarins. Heimilt er félagsmönnum að gera tillögur um lagabreytingar og skulu þær þá berast stjórn a.m.k. einum mánuði fyrir aðalfund. Lagabreyting tekur gildi ef hún hlýtur atkvæði 2/3 hluta fundarmanna á aðalfundi.

11.  Félagsslit

Til að slíta sambandinu þarf samþykkt 4/5 atkvæða á aðalfundi og ákveður þá fundurinn hvernig eignum og skuldum sambandsins skuli ráðstafað.