Um ljósritun kennslubóka

AF GEFNU TILEFNI

Minni ljósritun – Meiri útgáfa

Á Facebook-síðunni Bakland tónlistarkennslu birtist færsla þ. 9. september 2021 þar sem einn félagsmanna í SÍTÓN greinir frá alvarlegu tilviki um óleyfilega ljósritun á hans bókum. Þar sem umræða varðandi ljósritun tónbóka er þörf og nauðsynleg og af því tilefni sem að ofan greinir er við hæfi að árétta eftirfarandi í þeim efnum.

Staðfesting á orðrómi

Tilvikið staðfestir þann orðróm að sums staðar sé pottur brotinn varðandi ljósritun tónbóka. Í fyrsta lagi hefur sá orðrómur lengi verið á kreiki að sumir tónlistarkennarar noti nær eingöngu ljósrit í stað bóka (þetta hafa höfundar upplifað við prófdómarastörf). Í öðru lagi að einhverjir tónlistarskólar eða kennarar velji lög og verkefni úr nokkrum bókum, ljósriti, gormi og gefi eða selji nemendum ljósritin.

Virði og virðing

Liður í því að nemandi beri virðingu fyrir náminu er að eiga eigin námsbækur. Vinna með bók frekar en ljósrit stuðlar að því að nemandinn verður ábyrgari og áhugasamari í náminu því börn skynja virðismuninn á bók og ljósriti og haga sér samkvæmt því. Í námsbók finnur nemandinn faglegt samræmi og sér hvað er framundan í náminu. Spyr ef til vill hvenær megi spila það sem er aftar í bókinni. Flestir tónlistarkennarar átta sig á þessu samhengi og láta nemendur sína kaupa bækur sem þeir eru að vinna með. Um leið styðja þeir og efla íslenska tónbókaútgáfu. Sem betur fer eru flestir til fyrirmyndar hvað þetta varðar en betur má ef duga skal eins og ofangreint tilvik sýnir.

Tónbókaútgáfa

Að baki hverrar tónbókar liggur mikil vinna og fjárútlát. Velja þarf lög, afla birtingarleyfis rétthafa, útsetja og í sumum tilfellum að semja ný lög og verkefni. Setja upp handrit, vinna umbrot og leiðrétta prófarkir. Þá fyrst er hægt að láta prenta efnið svo úr verði bók. Eftir það kemur svo lagerhald, dreifing og innheimta. Sköpun bókar tekur oft 1-2 ár, stundum meira og eftir það getur tekið áratugi að halda henni við á markaði.
Höfundar og útgefendur tónbóka vona að tónlistarkennarar og skólastjórnendur séu sammála þeim um að íslensk tónbókaútgáfa sé ómissandi hluti af tónlistarfræðslu þjóðarinnar. Best er að sýna það í verki með því að halda ljósritun útgefinna bóka í lágmarki og ætíð innan löglegra og siðlegra marka.

Gylfi Garðarsson, formaður SÍTÓN

Risaútgáfa einsöngslaga – Ísalög

Í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands hefur Jón Kristinn Cortez ráðist í það þrekvirki að safna saman og gefa út á afmælisárinu ritröð 289 íslenskra einsöngslaga sem samin eru á tímabilinu 1918-2018.

Útgefandi ritraðarinnar er forlagið Ísalög, útgáfa Jóns Kristins.

Lagúravalið spannar verk 66 tónskálda og mun veita óviðjafnanlega yfirsýn yfir einsöngslög þjóðarinnar síðustu 100 ár  í einni samhæfðri ritröð. Lögin eru í upprunalegri tónhæð.

Af FB síðu útgefandans, Jóns Kristins Cortez.

Niðurstöður kennsluefniskönnunar

Greinargerð með niðurstöðum úr kennsluefniskönnun SÍTÓN í janúar s.l. er nú tilbúin til kynningar. Nálgast má hana til lestrar eða niðurhals hér: Íslenskt kennsluefni í grunnnámi tónlistar 2016-17 (pdf)
Vonast er til að í niðurstöðunum komi fram mikið af lykilupplýsingum sem geti hraðað framþróun íslensks kennsluefnis í tónlistarfræðslu. Tónlistarkennurum og hagsmunafélögum þeirra eru færðar bestu þakkir fyrir framlag sitt til að verkefnið skyldi heppnast jafn vel og raunin varð.
Gylfi Garðarsson, formaður SÍTÓN, sá um undirbúning og framkvæmd könnunarinnar ásamt ritun greinargerðarinnar.

Flautubókin mín 2

Nýtt efni frá félögum í SÍTÓN

Flautubokin_min_2-1.1

Flautubókin mín 2

Flautubókin mín 2 eftir Dagnýju Marínósdóttur og Ingunni Jónsdóttur er komin út. Bókin er framhald af kennslubókinni Flautubókin mín 1 og inniheldur fjölbreytt lög, æfingar og skapandi verkefni fyrir þverflautunemendur í grunnnámi. Miðað við vinsældir fyrsta heftisins má búast við að bókinni verði vel fagnað af kennurum og nemendum tónlistarskólanna.

SÍTÓN óskar Dagnýju og Ingunni til hamingju með bókina.

Könnun á tónlistarkennsluefni 2016

opus-2Á næstu dögum ýtir SÍTÓN úr vör könnun á umfangi íslensks kennsluefnis í tónlistar-skólum. Könnunin er gerð í samstarfi við FT, FÍH og STS. Hún mun standa til 15. janúar 2017. Áætlað er að gera sambærilega könnun næsta haust og síðan árlega ef vel tekst til.

Stjórn SÍTÓNs hefur unnið að undirbúningi könnunarinnar undanfarið ár með ýmis markmið í huga. Fyrst og fremst er þess vænst að niðurstöðurnar gefi marktæk svör um stöðu íslensks kennsluefnis í tónlistarskólum, hvað sé í notkun og hvar þurfi að bæta úr.

Vonast er til að framtakið skapi sameiginlegan vettvang fyrir tónlistarkennara, höfunda kennsluefnis og útgefendur varðandi íslenskt tónlistarkennsluefni þannig að grundvöllur slíkrar útgáfu verði burðugri en verið hefur hingað til.

 

Könnun kennsluefnis á grunnstigi

(Cliparts.com)

Frá vorinu 2015 hefur stjórn SÍTÓN unnið með FT, FÍH og STS að undir-búningi netkönnunar um notkun kennslubóka á grunnstigi tónlistarskólanna. Með því að gera nokkrar slíkar kannanir er markmiðið að byggja upp tölfræðigrunn um kennsluefni í tónlistarfræðslu á Íslandi, sambærilegan álíka upplýsingum í öðrum námsgreinum innanlands og tónlistargreinum á Norðurlöndum og víðar.

Forystumenn allra félaganna eru sammála um að þær upplýsingar  sem safnast í slíkum könnunum geti gagnast tónlistarkennslunni umtalsvert. Vonast er til að upplýsingarnar muni t.d. leiða til meiri og markvissari útgáfu tónlistarkennsluefnis og auka samvinnu á milli útgefenda og kennara. Annað mikilvægt atriði er að slík gögn geta varpað ljósi á stöðu íslensks kennsluefnis samanborið við erlent en hingað til hefur sá samanburður verið ógerlegur vegna skorts á talnagögnum hérlendis.

Stefnt er að því að fyrsta könnunin fari fram um næstu áramót og munu FT og FÍH annast útsendinguna til félagsmanna sinna. Samkvæmt samþykkt haustþings STS munu skólastjórar síðan ganga eftir að allir kennarar hafi svarað könnuninni á fyrsta starfs- eða kennarafundi tónlistarskólanna eftir áramót. Reiknað er með að gera næstu könnun í skólabyrjun haustið 2017 og haustið 2018. Eftir það munu félögin meta árangurinn og taka ákvörðun um framhaldið.

Save

Save

SÍTÓN fær aðild að Fjölís skv. gerðardómi

Niðurstaða gerðardóms um aðild SÍTÓN að Fjölís var birt í gær, 11. desember.  Dæmt var að aðildin sé samþykkt og taki gildi við dómsuppkvaðninguna. SÍTÓN ber engan kostnað af málaferlinu skv. dómnum.

Formlega hófst málið þegar SÍTÓN sótti um aðild með bréfi 18. október 2012. Í allt hefur aðildarferlið því tekið 14 mánuði, þar af 5 mánuði eftir þingfestingu í Héraðsdómi Reykjavíkur í júní.

Félagsmenn SÍTÓN fagna þessum mikilvæga áfanga og horfa nú björtum augum fram á veginn með væntingar um árangursríkt samstarf við samherja innan Fjölís. Stjórn SÍTÓN er sannfærð um að aðildin muni styrkja Fjölís varðandi tónlistarsamninga og vonandi að öðru leyti líka.

Með aðildinni mun aðkoma íslenskra tónbókaútgefenda að ljósritunarsamningum tónlistar færast nær því sem tíðkast á öðrum Norðurlöndum. Stefna SÍTÓN um eflingu útgáfu tónbóka ætti að byrja að njóta góðs af aðildinni á næsta ári eða 2015. Á næstu vikum kemur betur í ljós hve fljótt þessi nýja staða skilar því sem stefnt var að.

Gerðardómur um aðild SÍTÓN að Fjölís

SÍTÓN í alþjóðlegu samstarfi

Í mars síðastliðnum var aðild SÍTÓN samþykkt í samtökum tónbókaútgefenda á Norðurlöndum, NMU, og alþjóðasamtökum tónbókaútgefenda, ICMP.
Á Musikmesse Frankfurt voru saman komnir fulltrúar sambanda tónbókaútgefenda margra Evrópulanda og gafst þá gott tækifæri til að hitta norrænu kollegana og forystufólk ICMP.

Monika, formaður NMU, Gylfi Garðarsson og Ger Hatton frá ICMP

Monika, formaður NMU, Gylfi Garðarsson og Ger Hatton frá ICMP

SÍTÓN aðild að ICMP

Brussels, 8 April 2013 – The ICMP Board has approved unanimously the associate membership applications of … the Icelandic Music Publishers Association (SITON) … at its board meeting of 18 March 2013.

Founded in 2012 by 10 music publishers, Iceland’s SITON is in its infancy but “working with ICMP is important to realise our growth and will help us gain access to best practise for the benefit of music publishers and the general music market in Iceland,” said SITON Chairman, Gylfi Gardarsson.

Welcoming the three new members, ICMP Director General Ger Hatton said, “We are very pleased to have these new members from the North and South of Europe who will help our international advocacy programme, through a consolidated global presence, in addressing key IP and copyright issues on behalf of the worldwide music publishing community.”

Nánar:
http://www.icmp-ciem.org/node/377

Samband íslenskra tónbókaútgefenda

Samband íslenskra tónbókaútgefenda, SÍTÓN, var stofnað 30. maí 2012 af útgefendum nótnabóka og skylds tónlistarefnis.

SÍTÓN er hagsmunafélag til að gæta hagsmuna og réttar útgefenda tónbóka og bæta skilyrði til sköpunar og útgáfu tónbóka á prenti og stafrænum miðlum.

Á stofnfundi var kosin bráðabirgðastjórn sem skal m.a. fjölga stofnfélögum og undirbúa fyrsta aðalfund sambandsins fyrir október 2012. Í stjórn voru kosnir Gylfi Garðarsson, Jón Kristinn Cortez og Björgvin Þ Valdimarsson.

Allir sem hafa gefið út tónlistarefni geta sótt um aðild. Eina kvöðin er að uppfylla skilaskyldu Landsbókasafns með ISBN númeruðu tónlistarriti og munu stjórnarmenn aðstoða við að uppfylla það skilyrði.