Fréttir-Tilkynningar

Könnun kennsluefnis á grunnstigi

(Cliparts.com)

Frá vorinu 2015 hefur stjórn SÍTÓN unnið með FT, FÍH og STS að undir-búningi netkönnunar um notkun kennslubóka á grunnstigi tónlistarskólanna. Með því að gera nokkrar slíkar kannanir er markmiðið að byggja upp tölfræðigrunn um kennsluefni í tónlistarfræðslu á Íslandi, sambærilegan álíka upplýsingum í öðrum námsgreinum innanlands og tónlistargreinum á Norðurlöndum og víðar.

Forystumenn allra félaganna eru sammála um að þær upplýsingar  sem safnast í slíkum könnunum geti gagnast tónlistarkennslunni umtalsvert. Vonast er til að upplýsingarnar muni t.d. leiða til meiri og markvissari útgáfu tónlistarkennsluefnis og auka samvinnu á milli útgefenda og kennara. Annað mikilvægt atriði er að slík gögn geta varpað ljósi á stöðu íslensks kennsluefnis samanborið við erlent en hingað til hefur sá samanburður verið ógerlegur vegna skorts á talnagögnum hérlendis.

Stefnt er að því að fyrsta könnunin fari fram um næstu áramót og munu FT og FÍH annast útsendinguna til félagsmanna sinna. Samkvæmt samþykkt haustþings STS munu skólastjórar síðan ganga eftir að allir kennarar hafi svarað könnuninni á fyrsta starfs- eða kennarafundi tónlistarskólanna eftir áramót. Reiknað er með að gera næstu könnun í skólabyrjun haustið 2017 og haustið 2018. Eftir það munu félögin meta árangurinn og taka ákvörðun um framhaldið.

Save

Save