Fréttir varðandi SÍTÓN, fagið eða tengd málefni.

Könnun kennsluefnis á grunnstigi

(Cliparts.com)

Frá vorinu 2015 hefur stjórn SÍTÓN unnið með FT, FÍH og STS að undir-búningi netkönnunar um notkun kennslubóka á grunnstigi tónlistarskólanna. Með því að gera nokkrar slíkar kannanir er markmiðið að byggja upp tölfræðigrunn um kennsluefni í tónlistarfræðslu á Íslandi, sambærilegan álíka upplýsingum í öðrum námsgreinum innanlands og tónlistargreinum á Norðurlöndum og víðar.

Forystumenn allra félaganna eru sammála um að þær upplýsingar  sem safnast í slíkum könnunum geti gagnast tónlistarkennslunni umtalsvert. Vonast er til að upplýsingarnar muni t.d. leiða til meiri og markvissari útgáfu tónlistarkennsluefnis og auka samvinnu á milli útgefenda og kennara. Annað mikilvægt atriði er að slík gögn geta varpað ljósi á stöðu íslensks kennsluefnis samanborið við erlent en hingað til hefur sá samanburður verið ógerlegur vegna skorts á talnagögnum hérlendis.

Stefnt er að því að fyrsta könnunin fari fram um næstu áramót og munu FT og FÍH annast útsendinguna til félagsmanna sinna. Samkvæmt samþykkt haustþings STS munu skólastjórar síðan ganga eftir að allir kennarar hafi svarað könnuninni á fyrsta starfs- eða kennarafundi tónlistarskólanna eftir áramót. Reiknað er með að gera næstu könnun í skólabyrjun haustið 2017 og haustið 2018. Eftir það munu félögin meta árangurinn og taka ákvörðun um framhaldið.

Save

Save

Nótur í bókasöfnum

Hvert er umfang nótnarita í íslenskum bókasöfnum? Hvers konar nótnarit eru þar og hverjir standa á bak við þau? Hver er útgáfusaga tónbóka fyrir skóla og kirkjur eftir 1935?  Þessar spurningar og ýmislegt þeim tengt er umfjöllunarefni greinagerðar SÍTÓN um skylduskráð nótnarit í íslenskum bókasöfnum vorið 2014.  Sjá nánar: Nótnarit í Gegni

Nótur og nótnaútgefendur í bókasöfnum

Nótur og nótnaútgefendur í bókasöfnum

SÍTÓN fær aðild að Fjölís skv. gerðardómi

Niðurstaða gerðardóms um aðild SÍTÓN að Fjölís var birt í gær, 11. desember.  Dæmt var að aðildin sé samþykkt og taki gildi við dómsuppkvaðninguna. SÍTÓN ber engan kostnað af málaferlinu skv. dómnum.

Formlega hófst málið þegar SÍTÓN sótti um aðild með bréfi 18. október 2012. Í allt hefur aðildarferlið því tekið 14 mánuði, þar af 5 mánuði eftir þingfestingu í Héraðsdómi Reykjavíkur í júní.

Félagsmenn SÍTÓN fagna þessum mikilvæga áfanga og horfa nú björtum augum fram á veginn með væntingar um árangursríkt samstarf við samherja innan Fjölís. Stjórn SÍTÓN er sannfærð um að aðildin muni styrkja Fjölís varðandi tónlistarsamninga og vonandi að öðru leyti líka.

Með aðildinni mun aðkoma íslenskra tónbókaútgefenda að ljósritunarsamningum tónlistar færast nær því sem tíðkast á öðrum Norðurlöndum. Stefna SÍTÓN um eflingu útgáfu tónbóka ætti að byrja að njóta góðs af aðildinni á næsta ári eða 2015. Á næstu vikum kemur betur í ljós hve fljótt þessi nýja staða skilar því sem stefnt var að.

Gerðardómur um aðild SÍTÓN að Fjölís

Aðalfundur 2013

Aðalfundur SÍTÓN 2013 var haldinn 29. maí í Tónlistarsafni Íslands, Kópavogi.
Í stjórn voru kosnir Gylfi Garðarsson, formaður, Björgvin Þór Valdimarsson, gjaldkeri og Jón Kristinn Cortez, ritari.
Varamenn í stjórn voru kosnar Marta Sigurðardóttir, Guðfinna Guðlaugsdóttir og Linda Margrét Sigfúsdóttir. Skoðunarmenn reikninga voru kosnir Sigvaldi Snær Kaldalóns og Sigurður I. Snorrason.

Verkefni nýliðins vetrar
Í greinargerð formanns um gang verkefna frá síðasta aðalfundi ber hæst baráttu SÍTÓN fyrir aðild að Fjölís auk fleiri góðra mála eins og fjölgun félaga, kynning á félaginu, aðild að erlendum samtökum, kynning íslenskra tónbókaútgefenda á Musikmesse Frankfurt, tilkynning um ljósritunarbann og ýmislegt fleira.

Verkefni út 2013
Af verkefnum félagsins fram að næsta aðalfundi ber hæst áframhaldandi barátta fyrir aðild að Fjölís, nú fyrir gerðardómi, og úrvinnsla málsins eftir að dómur hefur fallið í sumar. Haldið verður áfram með kynningu á félaginu, fjölgun félaga, erlent og innlent samstarf og ýmislegt fleira eftir föngum. Sérstaklega verður reynt að leita leiða til erlendrar kynningar og útflutnings á íslenskum tónbókum ef styrkir og hjálp fæst frá viðeigandi sjóðum, stofnunum og öðrum mögulegum aðilum.

Á Musikmesse Frankfurt

Formaður SÍTÓN fór á tónlistarkaupstefnuna í Frankfurt í apríl m.a. til að kynna efni íslenskra útgefenda.  Á fyrsta degi stefnunnar voru pallborðsumræður á vegum sambands tónbókaútgefenda Þýskalands (DMV) og alþjóðasamtaka tónbókaútgefenda (ICMP). Eins og sést á bakgrunni myndarinnar að neðan var efni fundarins fjölföldun tónbóka í tónlistarkennslu og leiðir til að svara því.

Gylfi Garðarsson frá SÍTÓN og Ger Hatton framkvæmdastjóri ICMP

Gylfi Garðarsson frá SÍTÓN og Ger Hatton framkvæmdastjóri ICMP

SÍTÓN í alþjóðlegu samstarfi

Í mars síðastliðnum var aðild SÍTÓN samþykkt í samtökum tónbókaútgefenda á Norðurlöndum, NMU, og alþjóðasamtökum tónbókaútgefenda, ICMP.
Á Musikmesse Frankfurt voru saman komnir fulltrúar sambanda tónbókaútgefenda margra Evrópulanda og gafst þá gott tækifæri til að hitta norrænu kollegana og forystufólk ICMP.

Monika, formaður NMU, Gylfi Garðarsson og Ger Hatton frá ICMP

Monika, formaður NMU, Gylfi Garðarsson og Ger Hatton frá ICMP

SÍTÓN aðild að ICMP

Brussels, 8 April 2013 – The ICMP Board has approved unanimously the associate membership applications of … the Icelandic Music Publishers Association (SITON) … at its board meeting of 18 March 2013.

Founded in 2012 by 10 music publishers, Iceland’s SITON is in its infancy but “working with ICMP is important to realise our growth and will help us gain access to best practise for the benefit of music publishers and the general music market in Iceland,” said SITON Chairman, Gylfi Gardarsson.

Welcoming the three new members, ICMP Director General Ger Hatton said, “We are very pleased to have these new members from the North and South of Europe who will help our international advocacy programme, through a consolidated global presence, in addressing key IP and copyright issues on behalf of the worldwide music publishing community.”

Nánar:
http://www.icmp-ciem.org/node/377

Aðalfundur 2012

Fyrsti aðalfundur SÍTÓN var haldinn þann 10. október 2012 í sal Tónlistarsafns Íslands, Kópavogi.
Í stjórn félagsins voru kosnir Gylfi Garðarsson (formaður), Björgvin Þór Valdimarsson (gjaldkeri) og Jón Kristinn Cortez (ritari) en þeir höfðu forgöngu um stofnun félagsins vorið 2012 og voru kosnir í undirbúningsstjórn þess á stofnfundinum í maí s.l.
Varamenn í stjórn voru kosnar Dagný Marínósdóttir, Linda Margrét Sigfúsdóttir, Marta Sigurðardóttir og Guðfinna Guðlaugsdóttir. Skoðunarmenn reikninga voru kosnir Þórir Þórisson og Sigvaldi Snær Kaldalóns.

Verkefni frá stofnfundi
Formaður gerði grein fyrir störfum undirbúningsstjórnar eftir stofnfundinn. Félagið var skráð og fékk kennitölu, keypt var veflénið „siton.is“, kynningarefni var útbúið og dreift á tveimur tónlistakennarþingum haustsins og þingi skólastjóranna. Greinargerð með umsókn um aðild að Fjölís er tilbúin.

Verkefni komandi vetrar
Af verkefnum félagsins fram að næsta aðalfundi hefur umsókn um aðild að Fjölís algeran forgang. Að auki verður áhersla á fjölgun félaga, innheimtu félagsgjalda og kynningu félagsins. Uppsetningu vefsíðu og ýmsum öðrum málum verður reynt að sinna eftir föngum.

Stofnfélagar
Eftirfarandi meðlimir, sem sátu stofnfundinn í maí og þennan fyrsta aðalfund, eru stofnfélagar SÍTÓN:

Flautubókin
Gítarskólinn
Hlustun og greining
Höfum gaman ehf
Ísalög
Kaldalónsútgáfan
Nótnaútgáfa B.Þ.V.
Nótuútgáfan
Opus og tónfræðibækurnar
Skálholtsútgáfan

Samband íslenskra tónbókaútgefenda

Samband íslenskra tónbókaútgefenda, SÍTÓN, var stofnað 30. maí 2012 af útgefendum nótnabóka og skylds tónlistarefnis.

SÍTÓN er hagsmunafélag til að gæta hagsmuna og réttar útgefenda tónbóka og bæta skilyrði til sköpunar og útgáfu tónbóka á prenti og stafrænum miðlum.

Á stofnfundi var kosin bráðabirgðastjórn sem skal m.a. fjölga stofnfélögum og undirbúa fyrsta aðalfund sambandsins fyrir október 2012. Í stjórn voru kosnir Gylfi Garðarsson, Jón Kristinn Cortez og Björgvin Þ Valdimarsson.

Allir sem hafa gefið út tónlistarefni geta sótt um aðild. Eina kvöðin er að uppfylla skilaskyldu Landsbókasafns með ISBN númeruðu tónlistarriti og munu stjórnarmenn aðstoða við að uppfylla það skilyrði.