Ýmislegt

Nótur (1) – Ritmál tóna

Ritmál tóna

Hvað ef?
Oft er hollt að ímynda sér hverju það breytti ef sjálfsögð fyrirbæri hefðu ekki orðið jafn sjálfsögð og þau eru. Sé ritlist tekin sem dæmi mætti spyrja: Hvað ef Halldór Laxness og aðrir rithöfundar hefðu aldrei ritað sínar sögur og þær væru eingöngu aðgengilegar sem upptökur eða munnmæli? Hvað ef fornritin hefðu aldrei verið rituð? Hver væri þá staða skáldskapar og ritlistar á Íslandi? Hvað ef almennt væri talið að ritaður texti þvældist fyrir sagnalist í heyranda hljóði – að texti væri óþarfur? Hvað hefði orðið um verk Shakespeare ef þau hefðu ekki verið rituð og gefin út? Með þessum formála má byrja að velta fyrir sér hlutverki og vægi nótnaritunar fyrir tónlist. Skipta nótur máli? Eða eru þær orðnar óþarfa stagl sem þvælist fyrir lifandi tónlistarflutningi? Hafa nótur hlutverk í framtíðinni? Er komið eitthvað betra í þeirra stað? Hvað ef allar nótur hyrfu skyndilega? Inntak slíkra spurninga um hlutverk nótnaritunar í fortíð, nútið og framtíð er auðveldara fyrir flesta að skilja sé textaritun höfð til samlíkingar.

Forskrift að upplifun
Flutningur tónlistar og upplifun hennar er hið endanlega markmið listgreinarinnar. Eins og með framsögn í leikverki þá verður tónlistin mest raunveruleg á því augnabliki sem hún er flutt. Engu að síður verður ekki hjá því komist að hugleiða hvernig best sé að skrá, varðveita og miðla tónlist fram til þess augnabliks þegar hún er flutt. Allt frá frumhugmynd til lokaútgáfu listaverks í tónum eða texta verða höfundar og aðrir sem að verkinu koma að reiða sig á bestu varðveislu- og miðlunartækni sem listgreininni stendur til boða hverju sinni. Hvað tónlist varðar var nótnaritun besta tæknin fram að miðri 20. öld til að leysa slík verkefni. Með hjálp nótnaritunar hafa allir megindrættir tónlistar Evrópu síðustu 10 alda varðveist og átt sinn þátt í að svara sígildum spurningum kynslóðanna um sögu okkar og menningarafrek. Og hið sagnfræðilega eðli nótnaritunar mun einnig svara spurningum komandi kynslóða um tónmenningu okkar tíma. Hvað tónlist varðar þá var nótnaritun og er enn, þrátt fyrir allt, sú miðlunaraðferð sem best gegnir sambærilegu hlutverki og textaritun gerir fyrir talað mál.